Lesstofudvergur í Leuven

Saturday, September 30, 2006

Svo byrjaði skólinn

Ja hérna, vikan er heldur betur búin að vera erilsöm. Skólinn byrjaði á þriðjudaginn. Fyrstu 2 vikurnar í skólanum felast í svokölluðu "shopping" eins og kennararnir kalla það. Þá mætir maður í sem flesta tíma til að máta. Svo velur maður úr. Úrvalið er fjölbreytt og gott. Kennararnir eru flestir framúrskarandi og námsefnið mjög spennandi. Þar af leiðandi lenti ég, drottning valkvíðans, að sjálfsögðu í smá krísu með þetta alltsaman. Mar vill náttlea ekki vera með buyers remorse alla önnina! Lán í óláni að 5 af tímunum sem ég hafði áhuga á sköruðust og þar af leiðandi var í raun bara valið fyrir mann. Nú er lokavalið komið á blað (með bleki) og því ekki aftur snúið.
Af öðru sem gerðist í vikunni má nefna eftirfarandi (ætla samt að taka fram að vikan var exta full afþví hún var tileinkuð stúdentum, einskonar hátíð í tilefni skólasetningar):
Þriðjudagur: Mætt með sveitta efrivör í Puplic international Law kl. 11.00 eftir að hafa villst í öllum krókum og kimum lagadeildar nema þeim rétta. Var í tíma til 13.00 en þá fórum við Íslendingarnir í Ölmu 1 (sem er nú orðið einskonar ritual, lunch kl. 13-14 í Ölmu 1) og fengum okkur gúrmei mat... Mmmmm. Yfir hádegismatnum sannfærði Bogi okkur Birki um að kl. 14.00 væri alveg meiriháttar sniðugur tími í upplýsingatækni sem við bara mættum ekki missa af. Þannig að auðvitað mættum við í hann. Riiiigght. Alveg hreint mei-heiri-háttar tími. Lets just say I won't be buying anything Bogi Guðmundsson is selling anytime soon. Uuuu svo þurftum við aðeins að stússast, alltaf brjálað að gera þó kaupið sé lágt.
Um kvöldið var fyrsti matarklúbbur vetursins. Bogi og Ólafía elduðu þetta líka dýrindis buritos og buðu uppá bjór með. Mmmmmmmm (í alvöru mmmm sko, ekki eins og Ölmu 1 mmmm). Um miðnætti skelltum við okkur niðrí bæ en VRG, sem er félag laganema hér, var með partý á Music Café, héðan í frá known as Svitadiskó. Þar var hellingur af fólki og gríðar stemning. Við skvettum í okkur nokkrum bjórum og skelltum okkur svo á dansgólfið. Held að kvöldið hafi náð hámarki þegar remix útgáfa af gamla slagaranum Everybody dance now var spilað og mannskapurinn gjörsamlega trilltist. Já eða þegar Ik Wil Je, sem við kjósum að kalla flæmska Gleðibankan var spilað. Smekkfólk þessir Belgar. Nú enn sem fyrr átti Bogi náttúrulega dansgólfið með óborganlegum töktum. Því verður ekki lýst með orðum. Svo fórum við bara heim í háttinn um 2.
Miðvikudagur; ekki laust við smá þynnku... Mætt í The Court of Justice and the emerging Common Law of Europe kl. 11.00 sharp. Leist rosa vel á þann tíma. Lönds í Ölmu kl. 13 og frí til fjégur. Sá tími var að sjálfsögðu vel nýttur í að erindast svo kl. 16 mætti ég í Anthropology of Legal Systems and that would be a big no no. Prófaði svo Family Law sem er kennt á sama tíma og leist rosa vel á hann. Kl. 18 var svo Human Rights og hann lofaði mjög góðu. Klukkan 20 var ég mjög fegin að vera loksins búin að dreif mig heim að elda. Um kvöldið kíkti ég svo á tónleika sem voru úti í Leuven Stad park en garðurinn hafði þá um daginn verið undirlagður fyrir allskonar kynningarstarfsemi á komandi háskólaári. Svo kíktum við niður í miðbæ á Oude Markt en þar var útibíó. Varla hægt að lýsa þessu og læt því myndirnar sem koma bráðum tala sínu máli. Þennan dag kom líka pakkinn að heiman með fullt af drasli. Góð póstþjónusta mar, pabbi sendi kassann á fimmtudaginn síðasta frá Íslandi og hann er bara kominn upp að dyrum hérna 6 dögum seinna! Thanx to Taxi post. Ánægð með'etta.
Fimmtudagur: enginn skóli og því bara sofið út sem var voða notalegt. Daginn notaði ég í að útrétta, enn eina ferðina. Verð eiginlega að viðurkenna að ég man ekkert hvað ég var að brasa. Dagarnir eru svo fljótir að líða, svo er það svo skrýtið að samfélagið byrjar ekki að virka fyrren svo seint á daginn, svona um 10 og svo er allt lokað í hádeginu og svo allir farnir heim um fjögur. Merkilegt alveg hreint. Keypti mér samt 2 skólabækur og pikkaði upp smá glósur, Keypti líka lestarmiðan á flugvöllinn fyrir morgundaginn. Um kvöldið voru útitónleikar, eða réttara sagt heitasti DJ-inn í bransanum (svo er okkur sagt af Belgunum), var að spila á Oude Markt. Þangað vorum við mætt um 19 til að fá sæti. Þeirri stemningu er varla hægt að lýsa. Þetta var ótrúlegt. Í kringum 10.000 manns samankomnir á torginu í þvílíku reifi! Varla einu sinni hægt að láta myndirnar tala sínu máli. Eilea svona had to be there stemning. Tónlistin var líka fyndnust í heimi. Jæja, nóg um það, eftir tónleikana sem stóðu til rúmlega 23 fórum við á Svitadiskó þar sem VRG var aftur með partý fartý. Þar var rosa stuð og eignuðumst við m.a. eina norska vinkonu. Mar er alltaf að míngla sjáiði til... work it, work it!
Föstudagur: ööööörlítil þynnka. Samt varla til að tala um. Höhöm. Lönds í Ölmu, mæli ekki með því sem þynnkumat... nema þá kannski til að losa sig við... Anyways, enginn skóli hjá mér þann daginn. Byrjaði á því að þvo og svo fórum við Hafdís á heimsenda til að reyna að leigja hjól. Þar var náttlea búið að loka, enda klukkan rétt rúmlega fjögur og Skúli Fúli skreið fram í mér. Jæja, við kíktum aðeins í H&M og Skúli kvaddi. Svo fór ég í matvörubúðina og heim að elda. Í gærkvöldi kíktum við hreysikettirnir aðeins til Ma og Pa til að þvo og fá lánuð verkfæri. Dagurinn í dag var voða notalegur. Skruppum í morgun til að sýna Birki stuðning á æfingu... sýna stuðning/tjékka á sætu gaurunum = same difference. Kíktum á gymið í leiðinni og leist svona semi vel á. Huxa að við leitum á önnur mið þó. Það kemur allt í ljós eftir að ég kem frá Finnlandi. Eftir hádegi fórum við svo í Leuven stad park með bækurnar og lágum þar og sleiktum sólina. Já, þetta er allt frekar ömurlegt hérna. Alveg glatað. Ekki nema 25 stiga hiti.
Í kvöld ætlum við út að borða hjá Ítölunum. En núna þarf ég að fara að pakka!!! Finland is only a few hours away!! Miita vittu!!!
Þangaði til næst ;)

Monday, September 25, 2006

22 and counting

Jæja þá eru moskítóbitin orðin 22. Vaknaði kl. 03.34 í nótt við árás 3ja moskítóflugna. Það var ekkert annað í stöðunni en að kveikja bara ljósin og næsta eina og hálfa tíman var ég að veiða.
Svo var ég að frétta frá anti-moskító sérfræðingi að í tónik sé eitthvað efni kallað kíník sem fæli flugurnar frá. Þannig að ég og Hafdís ætlum að bregða okkur af bæ í kveld og fá okkur gin og tónik. Verður náttúrulega að vera gin með. Annað væri sóun á góðu tónik.
Eeen haldiði svo ekki bara að mín hafi fengið sinn fyrsta póst að Blijde - Inkomstraat 46 í dag. Þúst mar er enginn eðlilegur heimsborgari! Pin númerið á nýja fína belgíska bankareikningnum mínum. Eftir 2 daga kemur svo fína nýja belgíska debetkortið mitt. Voðalega er þetta spennandi alltsaman.
Fór í Ikea í 3ja sinn í dag. Og enn og aftur: guð blessi Ikea. Eyddi nú ekki miklu. Keypti bara lampa, þvottagrind og nokkrar aðrar nauðsynjavörur.

Á morgun byrjar skólinn. Í dag var setningarathöfn en hún felst að mestu í prófessorum í kuflum, skrúðgöngu og samkomu í kirkju með mikilli flæmsku. Ég ákvað að missa bara af henni. Ekki orðin það sterk í flæmskunni ennþá. En læt mig sko ekki vanta á næsta ári.
Í gær og dag streymdi Belgum í bæinn. Þeir voru velflestir með ferðatösku uppá annan arminn, mömmu sína uppá hinn arminn og stærðarinnar Tuppuware box í fanginu. Í Tuppuware boxinunum eru 5 minni pakkningar fullar af mat merktar; Mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur, fimmtudagur og föstudagur. Á föstudögum fara svo Belgarnir heim með fulla ferðatösku af skítugum fötum og tómt Tuppuware box. Bíddu er þetta lið ekki í háskóla for crying out loud! Hvar er mamma mín með matarpakkana mína og þvottavélina?
Jæja, ég er farin að elda. Það gerir víst enginn annar það fyrir mig!! Hehe
Goede middag,


Blúndubærinn

19 moskítóbit á 2 dögum. Er það ekki bara góður árangur? Á síðust 5 dögum er líka búið að skvetta á mig, sprauta á mig og frussa á mig. Vinsælast að skvetta/sprauta/frussa á brjóstin á mér. Svo það lýti út eins og brjóstamjólkin leki. Um að gera að vekja aðeins athygli á sér. Vera soldið öðruvísi...

Nú eru fyrstu myndirnar loksins komnar á netið hérna til hliðar undir hlekknum: Ævintýri dvergsins. Þar má líka finna myndir frá Köben, m.a.úr afmæli hennar Írisar.

Í gær fórum við á vegum skólans til Brugge/Bruges. Það er án efa fallegasta og rómantískasta borg sem ég hef séð. Enda tók ég endalaust af myndum.

Vaknað var kl. 07.11 sharp, því rútan lagði af stað kl. 08.00 og tók ferðin ca. 2 tíma. Þegar til Bruges var komið var okkur skipt í nokkra hópa og á móti okkur tók leiðsögumaður, eða kona í okkar tilfelli. Hún var alger dúlla og leiddi okkur í gegnum borgina. Við stoppuðum m.a. hjá The Lake of love en vatnið ber nafn sitt af henni Minu sem var yfir sig ástfangin af hermanni. Hermaðurinn þurfti að fara burt til að berjast í stríði og þá ákvað pabbi hennar að nota tækifærið og gifta hana ríkum en gömlum nágranna sínum. Mina vildi ekki una þessu og drekkti sér í vatninu. En á sama tíma snéri hermaðurinn hennar aftur úr stríðinu og fann hana látna á árbakkanum. Þjóðsagan er sú að snúirðu baki í vatnið og hendir 1 penný yfir öxlina á þér um leið og þú óskar þér, rætist óskin alltaf. Við vorum að sjálfsögðu öll staðráðin í að óska okkur á leiðinni til baka, en sökum lélegs tímaskyns enduðum við bara kófsveitt, með sveittustu efrivör allra tíma, í rútunni kl. 18.01 án þess að hafa óskað okkur. Við ætlum þó pottþétt að fara aftur til Bruges fyrir jól.

Með okkur í hóp var mikið að grjónum, þ.á.m. ein kona sem fór alveg á kostum. Hún hékk alltaf alveg uppí leiðsögukonunni, í bókstaflegri merkingu, alveg obbbbosslega áhugasöm og kinkaði kolli alveg uppí andlitinu á henni greyinu og sagði geðveikt hátt; mmmmmmmm, í hvert skipti sem leiðsögukonan sagði e-ð. Við Íslendingarnir erum náttúrulega svo þroskuð að okkur fannst þetta bara með því fyndnara sem við höfðum séð. Ég tók meira að segja myndband af þessu athæfi konunnar sem verður að teljast mjöööög furðulegt. Við vorum því alltaf flissandi og hermandi eftir henni. Mmmmmmm. Oooh, þetta er nú sennilega svona had to be there saga en okkur fannst þetta allavega gríðarlega fyndið.

leiðsögukonan sagði okkur að í gamla daga var bjór talinn lækning alls ills. Hann var jafnvel talinn hollari en vatn. Afhverju var ég ekki uppi á þeim tímum? Nenni níski huxar líka mikið um það að vatn sé actually dýrara en bjór héddna.

Hápunktur leiðsöguferðarinnar var án efa að fara inní Church of our Lady og sjá Maddonna and Child, eftir Mighelangelo. Ég fyllist alltaf lotningu við að sjá listaverk sem slík. Það er einhvernvegin ekki hægt að koma orðum af því hvað þau eru stórfengleg. Og myndirnar gera þeim aldrei réttlæti.

Að leiðsögutúrnum loknum, þ.e. eftir hádegi, var frítími til 18.00. Við byrjuðum á því að fá okkur að borða. Veitistaðirnir voru allir frekar dýrir, enda alger túristaparadís. Ekkert mál að ofrukka þá. Við völdum okkur veitingastað við Markt, sem er miðtorgið í borginni, þar sem hægt var að borða úti á verönd. Ólafía og Birkir gerðust svo hugrökk að smakka þjóðarréttinn; Moussles með frönskum dýfðum í majones. Vernandi eins matvönd og ég er ákvað ég að fá mér bara pizzu. En ég smakkaði einn moussle and lets just say I won’t be having that again. Takk fyrir og bless. Eftir þónokkrar rökræður ákváðum við að rölta af stað í borginni eftir matinn. Verandi í einni fallegustu borg í heimi var vel úr vegi að skoða bara það sem fyrir augum bæri. En fyrst þurfti Birkir að fá ís. Klára máltíðina sjáiði til. Og við stelpurnar súkkulaði. And let me tell you að ef ég ætti að velja á milli karlmanna og belgísks súkkulaðis myndi ég þurfa að huxa mig 2var um. Maður hefur ekki smakkað súkkulaði fyrren maður hefur smakkað belgískst súkkulaði. Mmmmmm. Ekki samt svona eins og pirrandi gellan mmmmm, heldur svona mmmm gott. Jæja nóg um það. Eftir að hafa misst af Hafdísi inní allt of margar búðir varð niðurstaðan sú að taka bara túristann á þetta all the way og fara á the Chocolate museum. Það var nú ekki kannski það mest meiriháttar safn sem ég hef farið á, en ágætis skemmtun svosem. Sáum hvernig súkkulaðið byrjar sem baunir í suður Ameríku og verður að konfektmolum útí búð. Allt voða spennandi. Þó að ég hefði nú frekar bara verið til í að borða súkkulaði.... eeen við fræddumst samt líka sem er alltaf voða gott.

Here are some little known, but very inlightning facts about chocolate: súkkulaði veldur ekki tannskemmdum, hækkar ekki kólesterólið í blóðinu og eykur ekki líkur á bólum. Bíddu, wtf! Ég hef bara vaðið í villu og reyk í öll þessi ár. Hefði getað borðað súkkulaði í morgun-, hádegis- og kvöldmat. Sem ég hyggst gera héðan í frá. Og drekka Stellu með. Amen.

Eftir súkkulaðisafnið fórum við á næsta pöb og fengum okkur Kwak bjór. Varla hægt að lýsa honum öðruvísi en með myndunum. Bjórinn sjálfur fær nú ekki háa einkunn en glasið var snilld. Enda skemmtum við okkur konunglega við að drekka hann. Mikið hlegið og eitt mjög töff fruss atriði.

Eftir Kwakið röltum við aðeins um borgina og skoðuðum fullt af allskonar útimörkuðum og skemmtilegheitum. Daginn enduðum við svo í siglingu í sýkinu sem liggur um bæinn. Sem var æðisleg. Klárlega puntkurinn sem toppaði ferðina. Nema hvað við erum típískir Íslendingar og þ.a.l. soldið sein... samt sko fashionable late. Endaði með að við gátum ekki klárað siglinguna og þurftum að láta leiðsögumanninn á bátnum stoppa bátinn í annarri höfn en þeirri sem við byrjuðum í. Hann var sem betur fer mjög ligeglad og varð við ósk okkar. Svo var bara hlaupið. Talandi um sveitta efrivör.

Um kvöldið fórum við út að borða hjá ítölsku vinum okkar hérna niðrí bæ. Svo var bara farið heim í háttinn enda búið að vera langur dagur.

Í dag var kærkomið frí. Belgía is boring on Sundays. Allt lokað. Engin dagskrá og ég var bara heima í rólegheitunum. Svaf út og skúraði. 3svar... mar er svoldið manískur, but whatever. Svo skruppum við Hafdís í smá göngutúr og fengum okkur ís og fórum uppá löggustöð. Núna er ég nýkomin heim, en við fórum öll út í 1 bjór áðan. Voða næs. Svo byrjaði að rigna. Náði að vígja nýju bleiku Snoopy regnhlífina mína. Ógilleg pæja.

Held þetta sé komið gott í bili,

Auf revoir

Friday, September 22, 2006

Being Gay

Ok, ég dreg til baka allar áður fram komnar athugasemdir þess efnis að karlpeningurinn hér sé ekki uppá marga fiska. Boy - o - boy er ég búnað vera að hanga á röngu stöðunum.
Í gær fórum ég, Ólafía og Birkir í alveg hreint magnað partý. Partýið var haldið af LOKO og var í Alma2 sem er 1 af mörgum mötuneytum hérna fyrir stúdenta. Þetta var international student party og var svo snjallt allt saman að ég á erfitt með að koma orðum að því. Mötuneytinu var bara breytt í þetta líka fína diskó, pálmatré úr neonljósum og DJ fenginn með 2 lífverði.
Við þremenningarnir ákváðum að hittast fyrst heima hjá Boga og Ólafíu um hálf tíu. Þar drukkum við nokkra bjóra og svo um miðnætti héldum við af stað í partýið. Þar var múgur og margmenni og svolítið sérstök tónlist, ef svo má að orði komast, teknó circa '93-'94, . Verandi Íslendingar ákváðum við að nokkrir drykkir á barnum væru klárlega nauðsynlegir svo við kæmumst í gírinn. Já og það mátti reykja inni en alveg hreint harðbannað að drekka bjór úti. Bara svo það sé á hreinu.
Hversu marga bjóra við drukkum er málinu algerlega óviðkomandi (og heldur óljóst núna daginn eftir) en þvílík og önnur eins skemmtun sem þetta partý var. Og heill haugur af myndarlegum strákum. Hvern hefði grunað að Belgir væru svona sætir. Ætla að láta myndirnar tala sínu máli en þær koma inn á sunnudaginn. Þar getið þið séð alla nýju vinina sem við eignuðumst. Frá hinum ýmsu heimshornum. Allavega, við enduðum kvöldið á vægast sagt vafasömum Kebab stað rétt fyrir 6 í morgun. Fengum reyndar frábært boð í eftirpartý en ákváðum að taka rain-check.
Annars er fátt annað títt. Vorum öll hálf þunn og drusluleg í dag eftir átök gærkvöldsins. Tókum þynnkumat á Pizza Hut og létum okkur svo hafa það að fara á vegum skólans að skoða gymið sem KU rekur. Það var voða flott og skemmtilegt en í þynnkunni kunnum við einhvernvegin ekki alveg að meta það. Fórum svo í bíó eftir það á einu myndina í bíó sem ég var ekki búnað sjá, The World trade center. Hún var glötuð.
Núna ætla ég að fara að bera á mig krem gegn flugnabitum og koma mér í bælið. I have an early morning, going to Brugge að skoða blúnduháskólann þar. Tjékka hvort ég sé nokkuð á rangri hillu í lífinu.
Goede nat.

Thursday, September 21, 2006

Being eaten alive

Í gær byrjuðu Orientation days. Það eru einskonar kynningardagar sem samanstanda af allskonar gagnlegum upplýsingum, m.a. survivalkit-i í flæmsku. Svona alveg flæmska for dummies. Annars eru þarna mest veittar upplýsingar sem hefðu komið sér afar vel í síðustu viku. En eru núna tótallí óld nús fyrir okkur Íslendingana sem have got it down already skiljiði. T.d.;

Hvernig á að finna Ikea. Ok, talandi um að við höfum masterað það nú þegar...

Hvernig á að finna íbúð. Bíddu... have you seen my penthouse?

Hvar supermarkaðurinn er? Ajax heaven. O.s.frv.

Oh, við erum svo ógillea klár. Ég er meira að segja orðinn stoltur belgískur bankareikningshafi! What more could a girl want? Ok, I can think of one thing...

Á föstudagskvöldið síðasta fórum við Hafdís í farandstívolí sem er hérna í miðbænum þessa dagana. Þar er fjöldinn allur af básum þar sem hægt er að vinna hina ýmsu vinninga, þ.á.m. bangsa. Okkur leyst voða vel á bangsana og tókum jafnframt eftir því að flestar stelpurnar á svæðinu virtust vera með einn slíkan og kærasta. Græðgin að gera útaf við fólk. Ef ég ætti kæró myndi ég ekkert þurfa bangsa skiluru. En vandamálið við að eiga ekki kæró er það að þá hefur maður engann til að vinna bangsa fyrir sig. Glatað! Þannig að við Hafdís tókum málin bara í eigin hendur og unnum bara bangsa fyrir okkur sjálfar. Verð nú að viðurkenna að mér hefði nú fundist að karlpeningurinn (sem btw er ekki uppá marga fiska hérna), á svæðinu hefði getað boðist til að vinna bangsa fyrir okkur. Frekar lélegir þúst. Mmmmhmmm. En ég hugga mig við það að allir fallegu herramennirnir eru bara í felum þangað til skólinn byrjar. Svo koma þeir allir í næstu viku. Pottþétt...

Fyrir þá sem þekkja mig vita sennilega flestir hvað ég er matvond. Það gladdi mig því að fatta að maturinn hérna er heilt yfir ágætur. Við Hafdís erum búnar að finna okkur æðislegan ítalskan veitingastað niðri í bæ, Pronto, þar sem er hægt að borða úti og þjónarnir tala bara ítölsku. Sem er fínt því að Hafdís talar einmitt fína ítölsku. Þjónarnir eru algerar dúllur og okkur finnst við alltaf vera prinsessur þegar við förum til þeirra. Oooog svo fáum við alltaf Amaretto með klaka eftir matinn. Afþví við erum svo sætar...

Annars virðist heitasti rétturinn hérna um þessar mundir vera franskar kartöflur í kramarhúsi með hvítri drullu ofaná. Þetta er matreitt við miklar vinsældir í svona veitingavagni, sem stendur við innganginn í Leuven Stad park. Við Hafdís erum vanar að hittast miðsvæðist milli íbúða okkar, og er það einmitt við þennan sama inngang í garðinn. Fyrir innan innganginn og þ.a.l. beint fyrir aftan matreiðsluvagninn er vagn þar sem hestarnir sem skemmta börnunum í fyrrnefndu tívolíi á daginn eru geymdir á nóttunni. Af bæði matreiðsluvagninum og hestavagninum leggur megn óþefur sem veldur því að við köllum þetta alltaf að “hittast hjá vondu fýlunni”. Svo er bara svona áskorun að anda ekki með nefinu og hvort sú sem kemur á undan er enn með meðvitund þegar sú sem seinna kemur mætir á svæðið. Mjög spennandi.

Ég verð samt að taka fram, í ljósi síðustu færslu minnar sem var heldur á neikvæðu nótunum, að allt pappírsflóðið og buisnessinn sem maður þarf að sinna hérna áður en skólinn byrjar er ótrúlega vel skipulagður. Þegar brottför frá Íslandi nálgast fer manni að berast í pósti hin ýmsu umslög með fullt af bréfum og stimpluðum pappírum. Ég skoðaði þetta nú allt við komu en fattaði ekki hvernig eða hvort helmingurinn af þessu átti að gagnast mér. Ákvað nú samt auðvitað að taka þetta bara allt með mér til vonar og vara. Sem reyndist góð ákvörðun. Hver einasti pappírssnepill er búinn að hafa tilgang. Hreint ótrúlegt. Og núna er allt að smella saman. Þó finnst mér, miðað við allt það sem ég er búin að koma í verk, að ég sé búin að vera hérna mánuðum saman en ekki bara í 1 og ½ viku!!

Á mánudag og þriðjudag var svolítið svalt, en í gær og í dag er aftur kominn 25 stiga hiti og sól. Segi ekki annað en að base-tan is for nerds. Hel-tan is for pro’s. Einn galli fylgir þessum hita þó. Í morgun vaknaði ég við þá óvæntu ánægju að vera komin með 6 bit víðsvegar á líkamann. Núna er klukkan 18.23 og 3 í viðbót hafa bæst við. Wtf!! Og núna er ég búnað sitja við tölvuna í u.þ.b. 45 mínútur (yes, I'm a nerd, but you know you love me), og 2 ný hafa bæst í hópinn. What am I doing wrong... Ég er bókstaflega being eaten alive. Stupid ass moskitos.

Jæja, núna þarf ég að fara að sjæna mig fyrir fabulous internation partý sem er í kvöld. Vonandi hitti ég þýskan læknanema....

Myndirnar koma vonandi um helgina...

Monday, September 18, 2006

Taking care of buisness

Á miðvikudaginn síðasta fórum við íslendingarnir í International students skráningu. Þar var tekin af okkur mynd og okkur afhent stúdentaskírteini. Þar var líka farið yfir nýfengin símanúmer og heimilisföng auk þess sem okkur var réttur fullur poki af hinum ýmsu gagnlegu upplýsingum. Loks fengum við þar líka bókaðan tíma til skráningar á aðsetri í Leuven, í ráðhúsinu.

Skráning í ráðhúsinu fór fram daginn eftir og henni fylgdi enn meira pappírsflóð, stimplar og vegabréfssýning. Að skráningunni lokinni var ég vinsamlegast beðin um að benda á íbúðina sem ég bý í á einhverri mynd. Sem ég gerði. Var mér svo sagt að á næstu dögum muni lögregluþjónn banka uppá hjá mér, og ekki til að strippa heldur til að kanna það hvort ég búi raunverulega á Blijde – Inkomstraat 46. Svari ég ekki dyrabjöllunni mun hann skilja eftir nafnspjald og þarft ég þá að hafa samband sem allra fyrst til að mæla mér mót við hann. Þegar hann hefur staðfest að ég búi í raun þar sem ég segist búa mun ég fá sendan gulan miða í pósti. Þarft ég þá að fara aftur niður í ráðhús með þennan gula miða, fara á bás 11 eða 12 og sýna hann. Við það fæ ég afgreiðslu. Þegar ég hef fengið hana þarftu að afhenta 2 bls. A4 eyðublað, útfyllt, 4 passamyndir, skráningarskírteini frá Háskólanum og staðfestingu á heilsutryggingu.

Ef ég vil stofna bankareikning þarf að koma aftur niður í ráðhús, daginn eftir, fyrir hádegi með 3 passamyndir til að fá sérstakt eyðublað um staðfestingu á aðsetri. 7 passamyndir! Mín kenning er sú að þeir séu að veggfóðra með passamyndum af mér þarna niðri í ráðhúsi.

Eftir miklar vangaveltur hef ég komist að þeirri niðurstöðu að til að borga trygginguna fyrir íbúðinni og leigu sé best að stofna belgískan bankareikning, því til þess eins að leggja peninga, og þá meina ég evrur nota bene, inná belgískan bankareikning þarftu að hafa belgískan bankareikning sjálfur. Wtf? Stupid ass bank system. Til að stofna bankareikning þarf staðfestinguna frá Ráðhúsinu, vegabréf, undirritaðan leigusamning og staðfestingu á skólavist. Til að stofna bankareikning þarf að panta tíma. 2-3 daga bið var í það. Nú við mætum á settum tíma með alla réttu pappíranna og gellan græjar og gerir og lætur okkur skrifa undir á hin ýmsu plögg og tjáir okkur svo að reikningurinn verði kominn í gagnið eftir 5 virka daga... Já, þetta er svona fljótt að gerast.

Til að þrífa íbúðina þurftum við Hafdís að labba á heimsenda til að finna súpermarkað með almennilegum hreingerningarvörum. Getið rétt ýmindað ykkur hamingjuna þegar við sáum Ajax rekkann teygja sig svo langt sem augað eygði. Guð blessi Ajax. Eftir þrifin var tilvalið að fara í Ikea (guð blessi Ikea og heimsendingarþjónustu þeirra. Já og Boga fyrir þrautseigju).

Ferðin í Ikea var nú frekar ævintýraleg eins og flest annað hérna. Við vorum búnað spurja annan hvern mann hvar Ikea væri en það virðast fæstir vita það. Valmöguleikarnir um transportation voru lest, strætó eða leigubíll. Allavega, við fengum loksins leiðbeiningar og niðurstaðan varð sú að taka strætó. Við fórum í þennan líka sveitta strætó nr. 358. Spurjum bílstjóran við inngöngu svona alveg til að vera viss hvort hann fari ekki örugglega framhjá Ikea. Jú, jú, hann segist gera það, þannig að við hlömmum okkur niður fyrir miðjum strætó. Eftir dágóða stund í vagninum förum við aðeins að skima í kringum okkur og til að missa nú ekki af stoppinu. Áfram heldur vagninn og við förum að hafa áhyggjur af því að vera bara komin framhjá. Þá förum við að spurja nálæga farþega hvort þeir viti hvar Ikea sé. Nú það talar náttúrulega enginn ensku þarna svo að Bogi reyndi þýsku. Fyrir svörum varð ung stelpa, Nei, ekki virkaði þýskan svo að ég reyndi frönsku. Ni, stelpan skildi ekki frábæru Flensborgarfrönskuna mína... skrýtið. Þá reyndum við idiot-proof aðferðina; Ikea? I K E A..!!?? Aaaaa Ikea, yes, far og brendir áfram. Einmitt, við erum semsagt ekki komin framhjá. Enn líður tíminn og Ólavía ákveður að smella sér bara frammí til bílstjórans og spyrja hann. Hann fullvissar hana um að enn sé korter eftir. Stuttu eftir það kemur svo þetta líka yndæla grjón og spyr á ensku hvort við séum enn að leita að Ikea? En ekki hvað? Hætta við ef á móti blæs? Ég held nú síður... Grjónið gefur okkur þær upplýsingar að eftir ca. 10 mín myndum við keyra framhjá amerískri bílaþvottastöð okkur á hægri hönd. Á sama tíma myndi e-ð annað, sem við náðum ekki alveg vera á vinstri hönd. Þessu næst ættum við að sjá silfurlitaða styttu í formi konu með útbreiddan arminn. Þá ættum við að íta á stopphnappinn því að á stoppustöðinni er framhjá þessu væri komið ætti Ikea að blasa við okkur á vinstri hönd. Við þökkum honum kærlega fyrir og hann fer út við næsta stopp. Eftir ca. 2 mínútur stekk ég á fætur og hrópa; hey, þarna er ameríska bílaþvottastöðin!! Hafdís, Ólavía og Bogi líta öll við, og hrópa já! Samróma. Í kjölfarið fylgir frá Hafdísi; hey og þarna er silfurlitaða konan. Við skimum öll fram á við. Sjáum nú enga silfurlitaða konu, en tókum orð Hafdísar trúanlega og ýtum á stopphnappinn í flýti. Strætó snarstoppar nánast strax og við æðum út. Hvar er silfurlitaða konan? Hún er þarna bakvið skýlið... Uuuu, ég sé enga silfurlitaða konu með útbreiddan arm...Jú, hún var þarna áðan, ég sver það. Þá lítum við til vinstri og sjáum ekkert Ikea blasa við okkur. Við hlaupum framdyrum strætó og bílstjórinn horfir afar einkennilega á okkur. Still Ikea? Spyr hann. Yes, yes! Svörum við með hasti. Not yet, svarar hann þá. Þannig að við fórum bara aftur inní strætó. Ameríska bílaþvottastöðin sem við sáum var semsagt bara Shell bensínstöð og silfurlitaða konan sem Hafdís sá var bara ímyndun. Mjög töff atriði. Ca. 7 mínútum seinna sést risastórt hús á hægri hönd kirfilega merkt ameríska fánanum og; CAR WASH. Þá birtist 2 metra há stálstytta af konu með útbreiddan arminn og er til vinstri var litið var ekki um að villast. We had arrived. Held að bílstjórinn og hinir farþegararnir hafi nú bara verið hálffegnir þegar við fórum loksins út.

3 tímum seinna labbaði ég út með fulla körfu af dóti og 206 evrum fátækari. En 2 tímum eftir það var litla holan mín bara orðin nokkuð kósí. Myndi segja að ég væri u.þ.b. hálfnuð með að gera hana íbúðarhæfa. Ótrúlegt að mér hafi tekist að eyða 206 € í ljósi þess að ég og Hafdís tókum Nenna níska sko alveg á þetta:

Náttborð á 9.99 €? Það er nú svoldið dýrt... hérna er fínasti kollur á 0,99 €, látum það duga. Hraðsuðuketill? Alger óþarfi. Ég sýð bara vatn í potti.

Diskar á 0,30 €. Ætti ég að tíma því? Þarf ég nema 1?

Bíddu kostar bjórinn 1,80 €? Hann kostaði nú bara 1,50 € þar sem við borðuðum í gær...

Note to self; hlaða síman og tölvuna alltaf í skólanum til að spara rafmagn. Heitt vatn er nú líka svoldið dýrt... hmmm... eh, who needs a shower? Showers are totally overrated anyways...

Í dag fórum við Hafdís til Brussel að versla. Borgin var allt öðruvísi en ég hafði búist við. Hún var rosalega skítug, erilsöm og heimilislaust fólk á hverju horni. Mæður með börnin sín, sitjandi á gangstéttinni að betla. Ég get bara ekki að því gert en svona nokkuð fær alltaf á mig. Ég vissi vel að Brussel er stórborg og átti svosem von á öllu framangreindu en ég áttaði mig einhvernvegin ekki á hversu stór hún er. Auk þess er maður nýkomin heiman frá Íslandi þar sem maður er vafinn inn í bómul og sveitamenningu. Sem er nú oftast ósköp notalegt. En svona er þetta, vonandi verð ég hrifnari af borginni eftir að hafa séð meira af henni. Náttúrulega ekki mikið að marka að sjá bara miðbæinn og búðirnar... hehe.

Jæja, ætla að hundska mér í bælið, ekki veitir af. Túmorró; skráning á flæmskunámskeið, frönskunámskeið, súpermarkaðurinn og þvottadagur!

Spennandi...

Sunday, September 17, 2006

Fyrstu dagarnir

Flutningarnir hófust föstudaginn 8. sept. Ég flaug til Köben samferða systur minni og fjölskyldu (til að sleppa við yfirvigt hálfa leiðina sjáiði til. Já, not just a hat-rack ;) Í Köben stoppaði ég í 4 daga, gisti hjá Halla Litla í nýju vistarverum hans, sem var einkar notalegt. Dögunum eyddi ég að mestu með systur minni og fjölsk. fórum m.a. til Malmö og í Tívolí sem var hin besta skemmtun.

Ég kom til Leuven mánudaginn 11. sept. um hádegi eftir ca.6 tíma ferðalag. Með leigubíl frá Halla, flugi frá Köben til Brussel og lest frá Brussel int.national airport til Leuven.

Hitinn við komu til Leuven var 28° og er enn. Sem ætti auðvitað að vera meiriháttar, en þegar maður þarf að labba bæinn á enda, fram og til baka, taking care of buisness, sem er sko nóg af, í u.þ.b. 8 klst. á dag er maður vægast sagt sveittur. Ég er því búin að vera með sveitta efrivör meira og minna síðan ég kom. En það er töff. Svo er ég líka búnað ná að vörka aðeins í taninu. Sem er ennþá meira töff. Já, lesstofudvergurinn er sko töff all over the place.

Nú fyrsta verk við komu til Leuven var að finna hostelið (sem reyndist vera snilldarlegt hostel).Það átti að vera við hliðina á lestarstöðinni en í ljósi þess að ég var með 3 stórar ferðatöskur tók ég þá upplýstu ákvörðun að geyma eina ferðatösku í öryggishólfi á lestarstöðinni. Gróf ég upp 10 evru seðilinn sem mamma hafði lumað að mér rétt fyrir brottför frá Íslandi og þakkaði guði fyrir hvað hún væri forsjál. Enda eina reiða féið sem ég hafði á mér og enginn hraðbanki í kílómetra radíus. Nú töskunni var komið í hólf og svo var hostelið fundið. Það reyndist bókstaflega hinum megin við götuna svo ég ákveð að sækja bara töskuna strax eftir tjékk inn. Eeen þá kom babb í bátinn. Miðinn sem nota þurfti til að opna skápinn var horfinn úr vasanum. Eftir dauðaleit ákvað ég að segja fokk it, þessar 3.10 evrur greiddu einungis leigu í 24 klst. svo að skápurinn hlyti nú að opnast á hádegi daginn eftir. Ég yrði þá bara á lestarstöðinni kl. 13.00 daginn eftir.

Þá var komið að því að finna íbúð. Nú reyndar þurfti ég að byrja á því að finna Housing Service og villtist nú aðeins við það. Var bara meiriháttar töff með nefið ofan í kortinu ráfandi um stræti borgarinnar. Endaði með að ég þurfti að fara into the map.... works every time.

Að finna íbúð var hægara sagt en gert. Satt best að segja held ég að ef ég hefði vitað útí hvað ég var að fara hefði ég bara sleppt því að koma. Hver hefði ekki giskað á að “te huur” þýddi “til leigu”? Jú, jú, það er svosem nóg af lausu húsnæði ef þú vilt búa í einhverri rottuholu, eða deila klósetti og sturtu með 15 manns. Já, nei takk. Aníveis við Hafdís fundum okkur báðar íbúðir sem okkur leyst ágætlega á að kvöldi mánudagsins en ákváðum að sofa á þeim. Daginn eftir vorum við hálf hræddar um að bjórinn og þreytan hefði haft áhrif á dómgreind okkar og að e.t.v. væru þetta bara rottuholur eins og allar hinar sem við höfðum séð þá fyrr um daginn. Varð mér þá einmitt hugsað til þess að daman sem sýndi mér íbúðina hefði enmitt verið á nærbuxunum og með henni grjón sem var bert að ofan. Kusum við að kalla þau “fjálslega parið”. Allt fullkomnlega eðlilegt.

Á þriðjudagsmorgun ákváðum við Hafdís að hringa í leigusalana, segjast vilja íbúðirnar en biðja um að hittast ekki fyrren um kvöldið til að skrifa undir leigusamningana og nota svo daginn í skoða annað. Mjög útsmognar sem er það eina sem virkar hérna. Sem við svo gerðum og að deginum loknum vorum við báðar komnar að þeirri niðurstöðu að við hefðum valið réttu íbúðirnar. Held ég sleppi því bara alveg að fara útí skítabælin sem við skoðuðum. Nú um kvöldið héldum við uppá þetta með Pizzu og bjór. Fleira gerðist ekki þann daginn nema hvað að kl. 13.00 var mín mætt uppá lestarstöð og beið þess með eftirvæntingu að skápurinn opnaðist og að taskan mín yrði frelsuð úr prísundinni. Kl. 13.30 voru farnar að renna á mig tvær grímur og ákvað ég því að fara í afgreiðsluna og spurjast fyrir um hvernig þetta virkaði eilea með þessa skápa. Þar tjáði fúll kall mér (eða var það bara ég sem var fúl.. ekki gott að segja) að skápurinn opnaðist sko bara ekkert að sjálfu sér og ég þyrfti aðstoð einhvers manns til að opna skápinn. Jæja, get ég þá fengið að ræða við þennann mann? Nei hann er ekki við. Ekki við segirðu, og hvenær heldurðu að ég geti þá náð í hann? Í fyrramálið kl. 07.00. Okey þá! Safe to say að ég og þessir öryggisskápar eigum ekki samleið. Lenti einmitt í útistöðum við annann eins á Kastrup nokkrum dögum áður.

Miðvikudagur kl. 07.00 sharp. Uppá lestarstöð að ræða við “manninn sem sér um skápana”. Jæja hann tjáir mér eftirfarandi; Normally it’s 12 euros to open closet if you loose ticket. Svo horfir hann á mig spurnaraugum. Uuuuuu, yes, I still need my bag, thank you. What kind og stupid ass question is this? 10 mínútum síðar var taskan frelsuð og ég fór aftur uppá hostel. Nenni níski ætlaði sko ekki að missa af morgunmat enda búnað borga good money for it. Herbergisfélagar mínir voru ennþá steinsofandi; Sú sem talaði stanslaust, sú sem talaði ekkert og sú ítalska sem talaði ekki ensku... there is no soap in this hotel. Yes, good luck with that. Ég á í mestu erfiðleikum með að skilja ekki flæmskuna, hvað þá ef mar talaði ekki ensku. Uuuuu, íslensku, einhver...? Enginn? Okey þá...

Þá hófust flutningarnir og Bogi og Ólavía hjálpuðu. Þegar við vorum búnað drösla töskunum uppá 4 hæð, í nýja penthásið mitt ákvað ég nú að vera svoldið húsleg og fara út með ruslið sem var á ganginum og var farið að leggja smá óþef af. Bogi grípur einn poka og ég hinn nema þá lekur úr pokanum hjá Boga og þessi líka skítafýla gýs upp. Bogi hrópar, OJ, OJ!!! Og ég bara; hlauptu, HLAUPTU!!! Sem hann gerir en á eftir honum er skítaslóð og lyktin, guð minn góður. Hvað var í pokanum vitum við ekki enn, en lyktin er ennþá til staðar þrátt fyrir að búið sé að þrífa stigaganginn hágt og lágt. Leigusalinn hringdi einmitt í dag til að segja mér það að stigagangurinn lyktaði sko venjulega ekki svona illa. Baðst hún afsökunar á þessu og tjáði mér jafnfram að pokinn hefði verið frá “frjálslega parinu” sem nú væri flutt út. Ég er því afar bjartsýn á framhaldið. Sjálf hef ég eytt þónokkrum klukkutímum í að þrífa nýja penthásið mitt og óhætt að segja að ekki hafi veitt af. Því verki er nærri lokið. “Penthásið” er semsagt 19fm. herbergi með sturtu, “eldhúsi” (2 skápum, vask, hellum og ískáp), 2 þakgluggum og voða sætu svefnlofti. Meðfylgjandi er líka fataskápur, hilla, skrifborð og internetaðgangur. Þarf að deila klósetti með 1 stelpu sem býr hérna við hliðina á mér. Nú, höllin er á 4 hæð og engin lyfta. Ég verð því augljóslega komin með kúlurass eftir veturinn. Tönuð með kúlurass? Could things get any better? Held bara ekki.

Jæja, meira á morgun, þ.á.m. ævintýraleg ferð með strætó í Ikea.

Thursday, September 07, 2006

Adios amigos