Lesstofudvergur í Leuven

Saturday, November 27, 2004

Efni í einkamál

Ólögmætur verknaður hefur átt sér stað.
Nú sbr. 2. mgr. 1. gr. Höfundalaga nr. 72 frá árinu 1972 teljast ljósmyndir þær sem á þessari síðu birtast ljósmyndalist (ég hef jú alltaf álitið mig ljósmyndara og listamann með meiru).
Samkvæmt 1. mgr. sömu greinar fyrrnefndra Höfundalaga á höfundur (ég í þessu tilfelli) eignarétt á verkum sínum með þeim takmörkunum sem lögin setja. Eignaréttur er jú eins og allir með-á-nótunum-laganemar vita lýstur friðhelgur af 72. gr. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 frá árinu 1944.
Samkvæmt 3. gr. Höfundalaga á höfundur einkarétt á því að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri. 2. mgr. 4. gr. sömu laga kveður á um það að óheimilt sé að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Sælir félagar! Óhætt að segja að útlitið sé ekki bjart fyrir ykkur...
8. gr. Höfundalaga: höfundur verks telst sá, uns annað reynist, sem nafngreindur er á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk er birt (ég hef aldrei farið leynt með það, enda með eindæmum stolt af myndsmíð minni, hver er "dvergurinn" á bakvið myndirnar). Í síðar málslið 8. gr. segir að þetta gildi einnig um höfunda, sem nota gervinöfn(Lesstofudvergurinn) eða merki, þegar almennt er vitað, hver þar felst að baki (þökk sé góðvinkonum mínum Dísu og Daða á Barkarstöðum vita ALLIR hver dvergurinn er).
Samkvæmt 49. gr. margnefndu Höfundalaganna er eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóta verndar laga þessara sem listaverk (þannig að hæpeþþettikklí, ef einhverjum ullarmígnum þættu þessar frábæru myndir ekki list, njóta þær samt sem áður verndar laganna, og hana nú! Já, strákar, útlitið verður bara svartara og svartara fyrir ykkur), sbr. 2. mgr. 1. gr., er óheimil án samþykkis ljósmyndara eða þess aðilja, sem rétt hans hefur hlotið. Nú er slík mynd birt opinberlega í atvinnuskyni eða ávinnings, og á ljósmyndari eða síðari rétthafi þá kröfu til þóknunar (ég hef sko ekki séð krónu með gati). Vernd ljósmyndar samkvæmt þessari grein skal haldast, uns liðin eru 25 ár frá næstu áramótum eftir gerð hennar (og það eru sko varla liðnar 25 mínútur frá gerð myndanna).
Að lokum vil ég benda á að brot á Höfundalögum varðar fésektum og fangelsi í allt að 2 ár, sbr. 54. gr. þeirra.
Nú vil ég benda ritnefnd Gríms Geitskós (þess ofmetna fréttasnepils) að kynna sér Höfundalög þessi í þaular því þeir munu eiga von á stefnubirtingu hvað úr hverju frá lögmanni mínu. Hvað varðar munnleg sammæli okkar félaganna um myndabirtingu skal vísast til samningalaganna í heild, þó helst ógildingarástæðu kafla þeirra auk meginreglna samningaréttarins um brostnar forsendur. Krafa um skaðabætur mun án efa höfð uppi, en hef ég ákveðið (af einskærri góðmennsku) að bíða með að súa þá félaga þar til eftir jólapróf. Gefa þeim smá séns í að klára samningarétt og skaðabótarétt.
Gleðileg Jól strákar mínir,
The Grinch

3 Comments:

At 2:12 PM, Blogger Lesstofudvergurinn said...

Í morgun þegar ég mætti í Löbban (ok, ok, í hádeginu) biðu mín skilaboð:

Skynjum vér biturð og sorg yðar í okkar gerð. Minnum vér yður jafnframt á orð frelsarans: fyrirgefið þeim, því þeir vita eigi hvað þeir gjöra.

Já, þetta þarf ég nú að íhuga vandlega, ég vil jú ekki ana að neinu...

 
At 12:24 PM, Blogger Hákon said...

Hmmm - Jeg myndi ekkert vera ad kynna mjer løg um Personuvernd i thessu samhengi!

 
At 2:27 PM, Blogger Lesstofudvergurinn said...

Persónuvernd mína eða þeirra??

 

Post a Comment

<< Home